Hagnaður Kviku banka nam 1.455 milljónum króna á fyrri helmingi ársins, sem er aukning um 42,2% frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 1.023 milljónum króna. Hreinar rekstrartekjur bankans námu 4.165 milljónum króna, sem er aukning um 37,2% frá síðasta ári þegar þær námu 3.037 milljónum króna.

Mestur var vöxturinn í þóknanatekjum en hreinar þóknanatekjur jukust um 52% á milli ára og voru 2.912 milljónir króna en megnið af aukningunni er tilkomin vegna aukinna umsvifa í eignastýringu. Hreinar vaxtatekjur námu 846 milljónum króna og jukust um 7%. Fjárfestingatekjur jukust einnig nokkuð og námu 374 milljónum króna.

Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður um 33,8%, úr 1.986,7 milljónum króna í 2.658 milljónir króna. Bankinn segir skýringuna einkum vera aukin umsvif í rekstri eftir kaupin á GAMMA Capital Management hf.

Innlánin aukist um fimmtung þökk sé Auði

Lausafjárstaða bankans var 193% en sjóður og innstæður í Seðlabanka og ríkisskuldabréf nema 38,3 milljörðum. Útlán til viðskiptavina námu 28,6 milljörðum króna og lækkuðu lítillega frá árslokum 2018.

Hlutfall innlána af útlánum bankans er 203% í lok tímabilsins en var 163% í lok árs 2018. Innlánin hafa aukist um 21% á árinu og námu 58,0 milljörðum króna í lok júní. Aukning innlána skýrist aðallega af nýrri innlánsleið bankans, Auði, sem var kynnt í mars að því er bankinn greinir frá.

Heildareignir 30. júní 2019 námu 114.703 milljónum króna og jukust um 30% frá árslokum 2018 þegar heildareignir námu 88,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall bankans í lok júní var 24,6% en hlutfallið var 25,4% fyrir áhrif áætlaðrar arðgreiðslu samkvæmt arðgreiðslustefnu bankans. Eiginfjárkrafa að viðbættum eiginfjáraukum er 20,75%.

Hækka afkomuspána í annað sinn í ár

Í upphaflegri afkomuspá bankans fyrir árið 2019 var gert ráð fyrir að afkoma fyrir skatta yrði 2,0 milljarðar króna en eftir að hún var hækkuð í maí síðastliðnum í 2,7 milljarða króna hefur hún verið uppfærð á ný. Samkvæmt henni verður áætluð afkoma fyrir skatta 2,9 milljarðar króna á árinu 2019.

Hreinar rekstrartekjur eru áætlaðar 8,2 milljarðar, þar af 67% hreinar þóknanatekjur, 23% hreinar vaxtatekjur og 10% fjárfestingatekjur.

Marinó Örn Tryggvason , forstjóri Kviku segir rekstur fyrstu sex mánaða ársins hafa gengið vel og afkoman umfram áætlanir. „Rekstur bankans hefur gengið mun betur en rekstraráætlanir gerðu ráð fyrir og hefur það leitt til þess að afkomuspá bankans er hækkuð fyrir árið. Arðsemi hefur verið góð og hefur meðal annars leitt til þess að eiginfjárstaðan er sterk og langt umfram kröfur,“ segir Marinó Örn.

„Sé tekið mið af horfum í rekstri Kviku og afkomuspá fyrir árið skapar sterk eigin- og lausafjárstaða mikið svigrúm. Nú þegar hefur aukin innkoma Kviku á einstaklingsmarkað aukið samkeppni. Aukin samkeppni fjölgar möguleikum fyrirtækja og almennings á fjármálamarkaði. Umhverfi fjármálafyrirtækja þróast ört með tæknibreytingum og við það skapast ný tækifæri til að þjónusta okkar viðskiptavini og ná fram frekari ábata í rekstri.“