Afkoma Kviku banka fyrir skatta á fjórða ársfjórðungi 2021 var á bilinu 2,6-2,7 milljarðar króna, sem samsvarar 25,3%-26,3% árlegri arðsemi á vegið efnislegt eigið fé. Þetta kemur fram í afkomuviðvörun sem bankinn sendi frá sér í gærkvöldi.

Hagnaður fyrir skatta hjá Kviku samstæðunni á öllu síðasta ári var því um 10,5 milljarðar króna og arðsemi á vegið efnislegt eigið fé á bilinu 34,5%-34,9%. Fram kemur að uppgjörið sé umfram áætlanir samtæðunnar en síðasta afkomuspá bankans gerði ráð fyrir að hagnaður fyrir skatta á síðasta ári yrði á bilinu 9,8-10,3 milljarðar króna.

„Rekstur samstæðunnar gekk vel á fjórðungnum og var grunnrekstur sterkur. Hreinar vaxtatekjur og tryggingarekstur voru talsvert umfram áætlun, auk þess sem að hreinar fjárfestingatekjur voru góðar,“ segir í tilkynningunni. „Hrein virðisrýrnun útlána var einnig undir áætlun.“

Hins vegar hafi rekstarkostnaður fjórðungsins verið nokkuð litaður af óreglulegum og einskiptis liðum. Er þar nefnt fyrirhugaða flutninga TM og dótturfélagsins Lykils í Katrínartún ásamt fyrningum óefnislegra eigna í kjölfar kaupverðsúthlutunar.

Sjá einnig: Kvika á sex hæðum í Katrínartúni

Kvika, sem sameinaðist TM í vor, segir að útlit sé fyrir að samsett hlutfall tryggingafélagsins verði um 89% á árinu 2021.

Bókfæra 5,7 milljarða sem óefnislegar eignir

Í tilkynningunni er gert grein á mati á óefnislegum eignum við samrunann. Niðurstaða matsins er að um 5,7 milljarðar eru færðar sem aðgreinanlegar óefnislegar eignir sem ber að fyrna yfir metinn nýtingartíma þeirra, auk þess sem færð er tekjuskattskuldbinding upp á 515 milljónir. Yfirtekin lántaka hækkar einnig um 234 milljónir í kjölfar gangvirðismats.

Þá var yfirtekið yfirfæranlegt tap endurmetið og skatteign að upphæð 971 milljónum króna var færð inn á efnahag Kviku. Viðskiptavild samstæðunnar lækkar um sem nemur 5,9 milljörðum.

Fram kemur að áhrif af þessum breytingum muni gæta á komandi árum í rekstrarreikningi samstæðunnar. Á árinu 2021 er færð hrein gjaldfærsla fyrir skatt sem nemur 135 milljónum, þar af 319 milljónir sem rekstrarkostnaður. Áætlað er að í ár verði hrein gjaldfærsla sem nemur 376 milljónum, 397 milljónir á árinu 2023 og 411 milljónir á árunum 2024 og 2025 en fari svo lækkandi þar á eftir.

Kvika tekur fram að uppgjör fjórða ársfjórðungs 2021 er enn í vinnslu og getur því tekið breytingum fram að birtingardegi þann 24. febrúar næstkomandi.