Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga (LS) nam 857 milljónum króna á árinu 2018 samanborið við 777 milljónir króna á árinu 2017. Breytingin á milli ára skýrist einna helst af miklum útlánavexti og aukinni verðbólgu samkvæmt tilkynningu frá LS.

Lánasjóðurinn sér fram á að eftirspurn eftir útlánum verði nokkuð kröftug á næstu misserum í ljósi uppbyggingar á innviðum og öðrum framkvæmdum í mörgum sveitarfélögum landsins. Þá er bent á að sveitarfélögum bjóðist nú lægstu útlánavextir í 52 ára sögu lánasjóðsins. Það er skýrt með traustum efnahag, lágum vaxtamun og lækkandi ávöxunarkrafa á verðtryggð skuldabréf.

Hlutverk lánasjóðins er að útvega lánsfjármagn á sem hagstæðustu kjörum til sveitarfélaga. Heildareignir sjóðsins í lok ársins voru 105,4 milljarðar króna en voru 85,7 milljarðar í árslok 2017 sem er aukning um 23%. Heildarútlán sjóðsins námu 99,1 milljarði króna í lok ársins samanborið við 73,6 milljarða í árslok 2017. Útlánaaukning á milli ára var 25,5 milljarðar eða 35%. Aukninguna má bæði rekja til almennrar aukinnar eftirspurnar eftir útlánum sem og uppgjöri sveitarfélaga á lífeyrisskuldbindingum við lífeyrissjóðinn Brú.

Eigið fé nam 17,9 milljörðum króna en var 17,5 milljarðar í árslok 2017. Vegið eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 77% en var 97% í árslok 2017.