Landsbankinn var með jákvæða afkomu sem nam 11,3 milljörðum króna á fyrri hluta þessa árs, en bankinn skilaði hagnaði sem nam 12,4 milljörðum króna á sama tímabili árið 2015.

Hreinar vaxta- og þjónustutekjur aukast

Hækkuðu þó hreinar vaxtatekjur bankans um 9% á milli tímabila en þær námu 17,6 milljörðum króna. Námu hreinar þjónustutekjur 3,9 milljörðum króna, sem er hækkun um 14,7% frá sama tímabili árið áður.

Virðisbreytingar hækkuðu um 400 milljónir króna á milli ára. Vegna minni hagnaðar af hlutabréfum lækkuðu svo aðrar rekstrartekjur úr 7,3 milljörðum króna í 4,4 milljarða. Jafnframt minnkaði arðsemi eign fjár, sem var 8,6% á ársgrundvelli í ár, en 10,4% á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur lækka og -kostnaður hækkar

Námu rekstrartekjur á fyrri helmingi ársins 28,2 milljörðum króna, en á sama tímabili árið 2015 námu þær 28,8 milljörðum króna.

Rekstrarkostnaðurinn hækkaði svo um 1,6% á milli ára, hækkaði launakostnaður í takt við kjarasamninga, en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 4,5% á milli tímabila.

28,5 milljarðar greiddir í arð

Námu heildareignir bankans í lok júní um 1.110 milljörðum króna samanborið við 1.173 milljarða króna ári fyrr, svo efnahagur bankans hefur dregist saman um rúm 5% síðasta árið.

Í apríl var ákveðið á hluthafafundi að greiða hluthöfum bankans samtals 28,5 milljarða króna í arð og því var eigið fé bankans 247,3 milljarðar í lok júní.

Íslenska ríkið á 98,2% eignarhlut, bankinn á 0,91% í sjálfum sér og svo eiga um 1.400 núverandi og fyrrverandi starfsmenn Landsbankans um 0,78% hlut. Auk þess eiga fyrrum stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands aðrir en íslenska ríkið 0,11% hlut.

Aldrei hærri markaðshlutdeild

„Á einstaklingsmarkaði mælist bankinn nú með 37,6% markaðshlutdeild, samkvæmt Gallup-könnun í júní, og hefur hún aldrei mælst hærri. Markaðshlutdeild á fyrir­tækjamarkaði hefur einnig aukist og niðurstöður úr þjónustukönnunum sýna að einstaklingar jafnt sem fyrirtæki kunna vel að meta þjónustu bankans. Umsvifin í eignastýringu aukast jafnt og þétt og bankinn er í forystusveit þegar kemur að viðskiptum í kauphöll,“ segir Steinþór Pálsson meðal annars í yfirlýsingu.