Hagnaður Landsbankans nam 14,4 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við 15,4 milljarða árið áður. Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 7,9% á ársgrundvelli samanborið við 8,8% á sama tímabili 2018. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri bankans.

Hagnaður þriðja ársfjórðungs hjá félaginu nam 3,25 milljörðum króna samanborið við 3,78 milljarða á sama tímabili árið áður og nam lækkunin því 14,1%. Að sama skapi lækkaði arðsemi eigin fjár eftir skatta hjá félaginu á þriðja ársfjórðungi samanborið við sama tímabil árið 2018 úr 6,5% í 5,4% eða um 16,9%. Kostnaðarhlutfall félagsins lækkaði hins vegar úr 45,9% á þriðja ársfjórðungi 2018 í 43,9% á sama tímabili í ár eða um 4,4%.

Rekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 námu 39,3 milljörðum króna samanborið við 41,1 milljarð króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 6,5 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 72% hækkun.