*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 11. febrúar 2021 17:07

Hagnast um 10,5 milljarða

Hagnaður Landsbankans í fyrra nam 10,5 milljörðum króna, samanborið við 18,2 milljarða króna árið 2019.

Ritstjórn
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Gígja Einars

Hagnaður Landsbankans á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 18,2 milljarða króna á árinu 2019, að því er kemur fram í ársuppgjöri bankans. Rekstrartekjur bankans á árinu 2020 námu 38,3 milljörðum króna samanborið við 51,5 milljarða króna árið áður. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna og skulda nam 2,5% en var 2,8% árið áður.

„Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 4,3% á árinu 2020, samanborið við 7,5% arðsemi árið áður. Hreinar vaxtatekjur námu 38,1 milljarði króna árið 2020 samanborið við 39,7 milljarða króna árið á undan. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 7,6 milljörðum króna árið 2020 samanborið við 8,2 milljarða króna á árinu 2019. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 7,5 milljarða króna samanborið við 3,6 milljarða króna á árinu 2019. Lækkunin skýrist einkum af 12 milljarða króna virðisrýrnun fjáreigna samanborið við virðisrýrnun upp á 4,8 milljarða króna árið 2019. Aukna virðisrýrnun fjáreigna má rekja til áhrifa heimsfaraldurs Covid-19,“ segir í ársuppgjöri Landsbankans.

Heildarvanskil fyrirtækja og heimila hafi staðið í stað á milli ára og verið 0,8% af útlánum. Vegna tímabundinna sértækra Covid-19 úrræða mælist 90 daga vanskil minni en ella.

„Rekstrarkostnaður bankans var 25,6 milljarðar króna á árinu 2020 samanborið við 28,2 milljarða króna á árinu 2019. Þar af voru laun og launa­tengd gjöld 14,8 milljarðar króna, samanborið við 14,5 milljarða króna árið áður. Annar rekstrarkostnaður var 9,1 milljarður króna á árinu 2020 samanborið við 9,5 milljarða króna árið 2019.

Hagnaður fyrir skatta á árinu 2020 var 12,6 milljarðar króna samanborið við 23,3 milljarða króna árið 2019. Reikn­aðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, voru 4,6 milljarðar króna árið 2020 samanborið við 10 milljarða króna árið 2019.

Heildareignir Landsbankans jukust um 137,8 milljarða króna á milli ára og námu í árslok 2020 alls 1.564 millj­örðum króna. Útlán jukust um 12% milli ára, eða um 133 milljarða króna. Útlánaaukning ársins er aðallega vegna lána til einstaklinga. Í árslok 2020 voru innlán frá viðskiptavinum 793 milljarðar króna, samanborið við 708 milljarða króna í árslok 2019.

Eigið fé Landsbankans í árslok 2020 var 258,3 milljarðar króna samanborið við 247,7 milljarða króna í árslok 2019. Enginn arður var greiddur til hluthafa á árinu 2020. Eiginfjárhlutfall Landsbankans í árslok 2020 var 25,1%, samanborið við 25,8% í árslok 2019. Fjármálaeftirlitið gerir 18,8% heildarkröfu um eiginfjárgrunn Landsbankans,“ segir jafnframt í ársuppgjörinu.

Bankaráð muni leggja til við aðalfund þann 24. mars 2021 að greiddur verði arður til hluthafa vegna ársins 2020 sem nemur 0,19 krónu á hlut, eða samtals 4,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan samsvari 43% af hagnaði samstæðunnar á árinu 2020

„Til marks um traustan, skilvirkan og stöðugan rekstur“

„Uppgjörið fyrir árið 2020 er til marks um traustan, skilvirkan og stöðugan rekstur bankans. Hagnaður bankans á árinu 2020 nam 10,5 milljörðum króna, arðsemin var 4,3% fyrir árið í heild og góð afkoma var af allri starfsemi bankans. Árangurinn er góður, sérstaklega ef haft er í huga að á árinu gjaldfærði bankinn um 12 milljarða króna vegna virðisbreytinga útlána en stór hluti af þeirri gjaldfærslu er vegna möguleika á útlánatöpum sem ekki hafa raungerst. Þetta uppgjör sýnir að bankinn er í sterkri stöðu til að styðja vel við viðspyrnu efnahagslífsins en einnig þá sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna heimsfaraldursins.

Áhersla á hagvæmni í rekstri heldur kostnaði stöðugum milli ára. Hlutfall kostnaðar af tekjum breytist lítið en það var 47,7% á árinu 2020. Rekstrarkostnaður stóð nánast í stað, líkt og verið hefur um árabil. Á sama tíma er mikil fjárfesting í stafrænni þróun.  Á síðustu þremur árum hefur bankinn kynnt um 40 nýjungar í stafrænni þjónustu fyrir viðskiptavinum.

Landsbankinn hefur aldrei lánað meira til íbúðakaupa eða endurfjármögnunar íbúðalána. Bankinn lækkaði vexti sex sinnum og þrátt fyrir miklar áskoranir vegna heimsfaraldursins gátum við mætt verulega aukinni eftirspurn eftir íbúðalánum og tryggt viðskiptavinum mjög góð og samkeppnishæf kjör. Við veittum rúmlega 10.000 einstaklingum og fjölskyldum íbúðarlán og hlutdeild bankans á íbúðalánamarkaði jókst í 26,3%.

Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir tryggð viðskiptavina á ári þar sem öllum áætlunum var kollvarpað. Við veitum viðskiptavinum um land allt fjármálaþjónustu og þar af um 700 fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Við höfum stutt við viðskiptavini okkar og veitt þeim úrræði og aðstoð og vonumst öll til þess að með haustinu horfi til betri vegar. Starfsfólk bankans hefur staðið sig afburðavel, er úrræðagott og hefur sýnt mikla aðlögunarhæfni. Með góðu starfsfólki og vegna öflugrar stafrænnar þróunar gátum við boðið nánast óskerta þjónustu. Viðskiptavinir brugðust vel við breyttum aðstæðum, voru fljótir að tileinka sér nýjungar og fundu að Landsbankinn var til staðar.

Á árinu 2021 vinnur Landsbankinn eftir nýrri stefnu, Landsbanki nýrra tíma. Stefnan fjallar um hvernig bankinn þróast í sífellu og nýtir stafræna tækni til að veita framúrskarandi fjármálaþjónustu með mannlegri nálgun. Við ætlum að einfalda viðskiptavinum lífið. Við hefjum árið með útgáfu nýrrar sjálfbærrar fjármálaumgjarðar og ætlum okkur áfram leiðandi hlutverk á sviði sjálfbærni. Það er Landsbanki nýrra tíma," er haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóri Landsbankans, í ársuppgjörinu.

Stikkorð: Landsbankinn uppgjör