Hagnaður Landsbankans nam 6.751 milljón króna á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar nam hagnaðurinn 1.664 milljónum króna og jókst hann því um 305% á milli ára. Tekið er fram í uppgjöri Landsbankans að hagnaðurinn á þriðja ársfjórðungi sé ögn lakari afkoma en á fyrri ársfjórðungum þessa árs.

Hagnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins nemur 22.276 milljónum króna sem er 64% meira en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 13.541 milljónir króna.

Vaxtamunur lækkar

Í uppgjöri Landsbankans segir að hreinar vaxtatekjur námu 24,3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins í samanburði við 26,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu heildareigna lækkar. Hann var 2,9% á fyrstu níu mánuðum ársins en 3,2% á sama tímabili í fyrra. Þá námu hreinar þjónustutekjur 4,1 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hafa þær aukist um tæpan milljarð frá í fyrra.

Lægri rekstrarkostnaður

Í uppgjörinu segir að mikill árangur hefur náðst við lækkun rekstrarkostnaðar og er það í samræmi við markmið bankans. Almenn rekstrargjöld lækka um 10% og laun og tengd gjöld um 6% milli ára, en sú lækkun er að frádreginni gjaldfærslu launa vegna móttöku hlutabréfa frá LBI hf. þar sem sama fjárhæð er einnig færð til tekna í bókhaldi bankans. Að teknu tilliti til verðbólgu hefur raunlækkun rekstrarkostnaðar milli ára verið 9,4%.Kostnaðarhlutfall lækkar einnig, í 42,3% samanborið við 48% á sama tíma í fyrra. Markmið bankans fyrir árið 2013 er að það sé undir 50%.

Stöðugildi 30. september voru 1.179 og hefur þeim fækkað um 54 frá áramótum.

Eigið fé bankans nam í lok september um 234,7 milljörðum króna og hefur það hækkað um 4% frá síðastliðnum áramótum þrátt fyrir 10 milljarða króna arðgreiðslu til eigenda bankans á árinu.

Eiginfjárhlutfall bankans (CAR – Capital Adequacy Ratio) er vel umfram kröfur Fjármálaeftirlitsins. Það er nú 26,2% en var 24,1% í lok september í fyrra. Arðsemi eigin fjár eftir skatta hækkaði þrátt fyrir hækkun eigin fjár. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2013 var arðsemin 12,9% samanborið við 8,6% á sama tíma árið áður. Heildareignir bankans námu 1.158 milljörðum króna í lok september. Aukningin er um 7% á árinu og skýrist helst af hækkun innlána og lausafjáreigna. Bankinn hefur lánað yfir 101 milljarða króna á tímabilinu en vegna afborgana og fleiri þátta aukast heildarútlán einungis um 5,3 milljarða.