Hagnaður Landsbankans nam 4,3 milljörðum króna eftir skatta fyrstu þrjá mánuði ársins 2014. Hagnaður á sama tímabili í fyrra nam tæpum 8 milljörðum króna. Landsbankinn greiddi á fyrsta ársfjórðungi tæplega 20 milljarða króna í arð til eigenda sinna. Í tilkynningu segir að þrátt fyrir þetta sé eiginfjárstaða bankans afar sterk og eiginfjárhlutfallið langt yfir kröfum eftirlitsaðila.

Lækkun á hagnaði milli fyrsta ársfjórðungs þessa árs og síðasta árs skýrist fyrst og fremst af lækkun á vaxtamun, lækkun tekna eigna sem færðar eru á markaðsvirði og hærri sköttum  Á móti kemur jákvæð virðisbreyting útlána og hækkun á hreinum þjónustutekjum frá sama tíma árið áður.  Helsta ástæðan fyrir lækkandi vaxtamun er að dregið hefur úr verðbólgu á milli tímabila.

Vegna lækkunar á tekjum þá hækkar kostnaðarhlutfallið  töluvert milli þessara tímabila. Almennur rekstrarkostnaður hækkar lítillega vegna kjarasamninga sem gerðir voru á fyrsta ársfjórðungi. Þegar horft er framhjá sveiflum í tekjum af markaðsbréfum er rekstrarkostnaður á áætlun, en reiknað er með raunlækkun á þessu ári.

Afkoma Landsbankans á fyrsta ársfjórðungi ársins er viðunandi í ljósi þess að vaxtamunur lækkaði töluvert og verðþróun á markaði var óhagstæð.  Bankinn greiddi myndarlegan arð til hluthafa í mars en heldur samt sem áður sterkri eigin- og lausafjárstöðu. Samfara batnandi efnahag hefur áfram dregið úr vanskilum. Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur ekki áður mælst jafn há og nú og eins og sjá má m.a. af opnun nýrrar Fyrirtækjamiðstöðvar í Borgartúni nú í apríl, er stöðugt verið að leita leiða til að sinna þjónustu við viðskiptavini með hagkvæmari hætti en áður, Við erum áfram bjartsýn á horfur í rekstri bankans á árinu og áfram verður unnið að hagræðingu,“ segir Steinþór Pálsson bankastjóri.