Hagnaður Landsbankans á fyrstu sex mánuðum ársins nam 14,9 milljörðum króna eftir skatta og lækkaði um 4% miðað við sama tímabil á árinu 2013, þegar hagnaður bankans nam 15,5 milljörðum króna, að því er kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Virðisaukning eigna stendur undir óvenjulega stórum hluta tekna á árinu, en í uppgjörinu kemur fram að þessi liður var jákvæður um 8,6 milljarða króna.

Tekið er fram í kynningu bankans að þrátt fyrir að hagnaður hafi dregist saman milli ára þá hafi skattar hækkað um 53%. Hagnaður bankans fyrir skatt var 21,5 milljarður króna á fyrri helmingi þessa árs samanborið við 19,8 milljarða á sama tíma í fyrra. Vegna hærri skatta er hagnaður bankans eftir skatt þó minni í ár en í fyrra.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 12,8% en var 13,5% á sama tímabili 2013.

Hreinar vaxtatekjur námu 15,2 milljörðum króna og lækka um 10% samanborið við sama tímabil 2013 en vaxtamunur er töluvert lægri en á fyrra ári. Hreinar þjónustutekjur standa nánast í stað á milli ára.

Heildareignir bankans námu 1.155 milljörðum króna í lok annars ársfjórðungs 2014. Lausafjárhlutfallið var 47% í lok júní 2014 en var 50% í lok árs 2013. Eigið fé bankans var í lok tímabilsins 235,9 milljarðar króna og hefur lækkað um 2,3% frá áramótum. Eiginfjárhlutfall bankans (Capital Adequacy Ratio), er nú 26,8% en var 26,7% í lok árs 2013.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að rekstrarafkoma og fjárhagsstaða Landsbankans sé með ágætum. Virðisaukning eigna hafi staðið undir óvenjulega stórum hluta tekna á árinu, en á móti sé vaxtamunur töluvert lægri en á fyrra ári. Samanlagt hafi frá stofnun bankans orðið virðisrýrnun á útlánum hans.

„Í maí skrifaði Landsbankinn undir samning um breytingar á skilmálum skuldabréfa Landsbankans og LBI hf. Lokagjalddagi þeirra verður árið 2026 í stað 2018. Sú lenging dregur verulega úr áhættu varðandi greiðslujöfnuð þjóðarbúsins á næstu árum og eykur um leið líkur á að hægt verði að stíga markviss skref í átt að afnámi fjármagnshafta. Að mati Landsbankans er brýnt að niðurstaða fáist í það mál sem fyrst til að draga úr óvissu um greiðslujöfnuð þjóðarbúsins og um endurfjármögnun Landsbankans í erlendri mynt,“ er haft eftir Steinþóri í tilkynningu.