Hagnaður Landsbankans í fyrra nam 25,5 milljörðum króna, sem er töluverð aukning frá árinu 2011 þegar hagnaður bankans nam tæpum 17 milljörðum króna. Afkoma bankans fyrir rekstrarkostnað var 49,1 milljarður króna, en var 30,7 milljarðar ári fyrr. Hreinar vaxtatekjur hækkuðu töluvert milli ára og fóru úr 9,1 milljarði í 31,2 milljarð. Í tilkynningu frá bankanum segir að auknar hreinar vaxtatekjur skýrist meðal annars af innborgun inn á skuldabréfið við LBI og áhrifum af yfirtöku SpKef sem var ekki að fullu inn í rekstrarreikningi 2013.

Rekstrarkostnaður jókst milli ára úr 22,1 milljarði árið 2011 í 24,1 milljarð í fyrra. Áætlaður tekju- og bankaskattur á árinu nemur 4,1 milljarði króna en skattahluti rekstrarreikningsins árið 2011 var neikvæður um 597 milljónir króna.

Í tilkynningu segir að stórar sveiflur séu í rekstrarliðum milli ára og endurspegli það þá óvissu sem enn sé í rekstrarumhverfi bankans. Á árinu 2011 gjaldfærði bankinn háar fjárhæðir vegna gengislánadóma en innleysti á móti umtalsverðan hagnað af sölu hlutabréfa og annarra eigna. Rekstrarkostnaður jókst á árinu 2012 meðal annars vegna aukinnar skattlagningar á laun, hærri gjalda vegna rekstrar eftirlitsaðila og hærra iðgjalds í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Eftir því sem óvissu léttir munu sveiflur í rekstrarafkomu minnka og skýrari mynd komast á grunnrekstur bankans, að því er segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni eru opinber gjöld sundurliðuð og sést þar að tekjuskattur nemur tæpum þremur milljörðum króna, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki er um 1,2 milljarðar, fjársýsluskattur á laun er um 620 milljónir, kostnaður vegna FME og Umboðsmanns skuldara aðrar 620 milljónir og greiðslur í Tryggingasjóð innstæðueigenda nema rúmum milljarði króna. Heildarkostnaður vegna þessa er því um 6,4 milljarðar króna.

Eiginfjárhlutfall bankans var í árslok 2012 25,1%, en var í árslok 2011 21,4%. Vaxtamunur bankans jókst úr 2,9% árið 2011 í 3,2% í fyrra og kostnaðarhlutfall hækkaði úr 40,6% í 45,0%.