Fjármálafyrirtækið Landsbréf hagnaðist um 53 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sjö milljónir króna hagnað allt í fyrra. Eignir í stýringu hjá félaginu námu 100 milljörðum króna í lok júní og var það 19% aukning á tímabilinu. Hreinar rekstrartekjur námu 434 milljónum króna í ár samanborið við 438 milljónir á öllu síðasta ári.

Eigið fé Landsbréfa í lok júní nam um 1.510 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall 94,8%. Hlutfallið má ekki verið lægra en 8,0% samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Fram kemur í uppgjörstilkynningu að á aðalfundi félagsins var ákveðið að auka eigið fé félagsins um 750 milljónir króna með hækkun hlutafjár og var það greitt inn á tímabilinu.

Í lok júní önnuðust Landsbréf hf. rekstur 27 sjóða og félaga um sameiginlega fjárfestingu. Alls eru um 12 þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í sjóðum eða í eignastýringu hjá Landsbréfum.