*

þriðjudagur, 21. september 2021
Innlent 28. ágúst 2020 14:02

Hagnaður Landsbréfa lækkar um 23%

Hreinar tekjur Landsbréfa af verðbréfum námu 30 milljónum á fyrri helmingi ársins samanborið við 171 milljón á sama tíma í fyrra.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður sjóðastýringarfyrirtækisins Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans, nam 232 milljónum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 301 milljón fyrir sama tímabil árið áður. Hagnaðurinn lækkaði því um 77 milljónir eða rúmlega 23% milli ára.  

Hreinar rekstrartekjur námu 844 milljónum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 921 milljón króna fyrir sama tímabil árið áður. Þar munaði helst um að hreinar tekjur af verðbréfum lækkuðu úr 171 milljón á fyrri helmingi síðasta árs niður í 30 milljónir í ár. Umsýsluþóknun og árangurstengdar þóknanir hækkaðu hins vegar um 10% milli ára og námu 767 milljónum á fyrstu sex mánuðum ársins.  

Rekstrargjöld voru alls 553 milljónir á tímabilinu. Laun og launatengd gjöld námu 271 milljón en starfsmenn félagsins eru 17 talsins. Meðallaun þeirra voru 1,9 milljónir króna á mánuði.  

Eignir Landsbréfa námu tæpum fimm milljörðum í lok júní. Eigið fé var 4,5 milljarðar, skuldir 506 milljónir og eiginfjárhlutfall því 93,89%.

Alls voru um 14 þúsund viðskiptavinir með fjármuni í sjóðum Landsbréfa og voru eignir í stýringu um 186 milljarðar króna í lok tímabils samanborið við 180 milljarða króna í upphafi árs.

„Árið 2020 hefur að mörgu leyti verið óvenjulegt ár, þar sem heimsfaraldur hefur geisað og talsverðar sveiflur verið á mörkuðum. Þrátt fyrir krefjandi markaðsaðstæður hafa sjóðir Landsbréfa almennt skilað góðum árangri.  Á tímum þar sem vextir hafa lækkað hratt, króna veikst umtalsvert og óvissa er óvenju mikil hefur gildi eignadreifingar og virkrar stýringar sannað gildi sitt,“ er haft eftir Helga Þór Arason, framkvæmdastjóra Landsbréfa, í tilkynningu.

Stikkorð: Landsbréf