Viðskiptablaðið kannaði rekstrarafkomu stærstu lögfræðistofa landsins. Í flestum tilfellum virðist afkoma lögmannsstofanna
hafa batnað verulega eftir bankahrun og því græða þær vel á yfirstandandi efnahagskreppu og margháttuðum afleiðingum hennar. Stærstu stofur landsins skiluðu allar hundruð milljóna króna hagnaði á árinu 2009.

Landslög ehf. hagnaðist um 155,5 milljónir króna eftir skatta á árinu 2009. Eignir stofunnar námu 344 milljónum króna í lok þess árs samkvæmt efnahagsreikningi. Lagt var til í ársreikningi að greiða út 150 milljónir króna til sjö hluthafa á árinu 2010 vegna þeirrar frammistöðu. Fjórir hluthafanna, Garðar Þ. Garðarsson, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Viðar Lúðvíksson og Jóhannes Karl Sveinsson áttu 19% eignarhlut hver en þrír minni hluthafar áttu 8% hlut. Alls voru 18 stöðugildi hjá Landslögum á árinu 2009 og greiddi stofan út 145,2 milljónir króna í laun og launatengd gjöld á því ári.

Landslög greiddu út 111 milljónir króna í arð til eigenda sinna á árinu 2009 vegna frammistöðu ársins áður og 140,2 milljónir króna á árinu 2008 vegna frammistöðu á árinu 2007. Hafi ætlaðar arðgreiðslur á árinu 2010 gengið eftir hafa eigendur stofunnar því fengið um 400 milljónir króna í arð fyrir árin 2007-2009.

Sameinast annari stofu

Á heimasíðu Landslaga segir að verkefni stofunnar séu margþætt, „enda eru viðskiptavinir stofunnar allt frá einstaklingum til stórfyrirtækja, fjármálastofnana, sveitarfélaga og stofnana ríkisins. Frá seinni hluta ársins 2008 hefur stofan verið leiðandi á sviði endurskipulagningar á banka- og fjármálakerfi landsins“.

Landslög sameinuðust annarri stofu, LM lögmönnum, í júlí 2010. Sameinað fyrirtæki er nú rekið undir nafni Landslaga og í samlagsfélagaformi. Það þýðir að það þarf ekki að skila ársreikningi framar.

Ítarlega úttekt á rekstrarafkomu stærstu lögfræðistofa landsins er að finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.