Hagnaður Landsnets hf. nam 1.231 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins 2014, samkvæmt nýjum árshlutareikningi fyrirtækisins. Hagnaðurinn dregst saman milli ára en á sama tímabili í fyrra nam hagnaður fyrirtækisins 1.488 milljónum króna.

EBITDA félagsins var 4.446 m.kr. samanborið við 4.850 m.kr. á sama tímabili í fyrra og lækkar því um 404 milljónir króna milli ára. Eiginfjárhlutfall í lok júní var 21,4% samanborið við 19,9% í lok ársins 2013. Þá nam eigið fé í lok tímabilsins 16.678 m.kr. samanborið við 15.446 m.kr. í lok árs 2013.

Heildareignir félagsins í lok júní námu 78.076 m.kr., borið saman við 77.608 m.kr. í lok síðasta árs. Heildarskuldir námu hins vegar 61.398 m.kr. samanborið við 62.162 í lok árs 2013.

Í tilkynningu frá félaginu segir að lausafjárstaða þess sé sterk en í lok júní nam handbært fé 8.718 m.kr. Handbært fé frá rekstri fyrstu sex mánuði þessa árs nam 1.612 m.kr.