Landsnet hagnaðist um rúman 1,7 milljarð á fyrri helmingi ársins, sem er 54% aukning frá sama tímabili í fyrra, að því er fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Hagnaður fyrir fjármagnsliði var svo til óbreyttur, en fjármagnsgjöld lækkuðu um rúman þriðjung, í rúman 1,1 milljarð króna.

Eiginfjárhlutfall er 41%, sem er 1,4 prósentustiga aukning frá áramótum, og handbært fé nam rúmum 5 milljörðum króna í lok júní.

„Það er ánægjulegt að sjá að niðurstöður árshlutareikningsins skila okkur góðri rekstarafkomu og sterkri eiginfjárstöðu. Endurfjármögnun félagsins, sem hófst fyrir tveimur árum, er að skila þessum  árangri. Framkvæmdakostnaður ársins stefnir í að verða nokkuð lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir en tafir meðal annars á leyfisveitingum valda því að stór verkefni eru að tefjast.“ segir Guðlaug Sigurðardóttir, fjármálastjóri.