Hagnaður Landsvirkjunar á fyrsta ársfjórðungi ársins 2017 nam 4,9 milljörðum króna eða 49,4 milljónum dollara. Á sama tímabili í fyrra nam 3,4 milljónum dollara og skýrir tekjuhækkun mikinn hluta hækkunnar milli tímabila, þó að stærstan þátt hafi breytingin á óinnleystum fjármagnsliðum. Því gæti reynst betra að horfa til hagnaðar fyrir óinnleysta fjármagnsliði sem nam 43,8 milljónum dollara eða 4,4 milljörðum króna en var 37,8 milljónir dollara á sama tímabili árið áður og hækkar því um 15,7% milli tímabila.

Rekstrartekjur félagsins námu 118,8 milljónum dollara eða 11,9 milljörðum króna og hækka um 13,3 milljónir dollara eða um 12,6% milli tímabila. EBITDA félagsins nam 88,3 milljónum dollara eða 8,8 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi. EBITDA hlutfall er 74,3% af tekjum, en var 77,9% á sama tímabili í fyrra.

Nettó skuldir Landsvirkjunar hækkuðu um 5,3 milljónum dollara eða um 500 milljónir króna frá áramótum og voru 196,6 milljarðar króna í lok mars. Handbært fé frá rekstri nam 66,3 milljónum dollara sem er 3,5% lækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir við tilefnið: „Afkoma fyrsta fjórðungs er vel viðunandi, enda er um að ræða einn tekjuhæsta ársfjórðung í sögu Landsvirkjunar. Þar hjálpaði hækkun álverðs og aukin sala miðað við fyrsta fjórðung ársins 2016, en á móti kom gengisþróun, en íslenska krónan styrktist talsvert á milli ára og óx því kostnaður mældur í Bandaríkjadölum. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem Landsvirkjun notar gjarnan sem helsta mælikvarða á rekstur fyrirtækisins, jókst um 16% á milli ára og er með betri ársfjórðungum  frá upphafi.“