Landsvirkjun hagnaðist um 16,7 milljarða króna á árinu 2015. Þetta kemur fram í ársreikningi fyrirtækisins sem var gefinn út í dag. Hagnaður árið 2014 var rúmlega 10 milljarðar, svo ljóst er að um er að ræða talsverða hækkun.

Rekstrartekjur námu 54 milljörðum króna, sem er dálítil lækkun eða um 3,8% frá árinu áður. Þá nam EBITDA félagsins 41,2 milljörðum króna, en hlutfall EBITDA af tekjum er 76,3% sem hækkar um hálft prósentustig milli ára.

Eignir félagsins námu 556 milljörðum króna. Af því var eigið fé um 247 milljarðar. Skuldir félagsins námu þá um 309 milljörðum króna, en skuldir drógust saman um 26 milljarða milli ára. Þetta gefur eiginfjárhlutfall upp á 44,7%.

Þá má nefna að frá árinu 2009 hafa skuldir félagsins lækkað um ríflega 107 milljarða íslenskra króna. Raforkusala Landsvirkjunar á árinu var sú mesta frá upphafi, eða um 13,9 teravattstundir.

Í tilkynningu er haft eftir Herði Árnasyni forstjóra félagsins að afkoman hafi verið góð þrátt fyrir krefjandi umhverfi - lækkandi álvert og óvissu á mörkuðum. Þá hafi sterkt sjóðstreymi gegnt lykilhlutverki í fyrrnefndri lækkun skulda.

Þess að auki var lánshæfismat Landsvirkjunar fært í fjárfestingarflokk, sem Hörður segir ánægjuleg tíðindi.