*

mánudagur, 20. janúar 2020
Innlent 16. ágúst 2019 14:43

Hagnaður Landsvirkjunar eykst

Hagnaður Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins nam 68,6 milljónum dollara og jókst frá sama tímabili í fyrra.

Ritstjórn
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Landsvirkjunar á fyrstu sex mánuðum ársins nam 68,6 milljónum dollara, eða sem nemur 8,5 milljörðum króna. Hagnaðurinn var 54,5 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra. Landsvirkjun greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði á fyrstu sex mánuðum ársins nam 96,4 milljónum dollara eða 12 milljörðum króna. Á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 86,7 milljónir og jókst hann því um 11,1% milli tímabila. Rekstrartekjur námu 259,7 milljónum dollara (32,2 ma.kr.) og lækka um 9,8 milljónir dollara (3,6%) frá sama tímabili árið áður.

EBITDA nam 198,2 milljónum dollara (24,6 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 76,3% af tekjum, en var 73,4% á sama tímabili í fyrra. Nettó skuldir lækkuðu um 126,1 milljón dollara (15,6 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok júní 1.758,5 milljónir dollara (218,1 ma.kr.). Handbært fé frá rekstri nam 159,9 milljónum dollara (19,8 ma.kr.) sem er 7,1% hækkun frá sama tímabili árið áður.

„Rekstur aflstöðva Landsvirkjunar gekk vel á fyrri hluta ársins 2019. Rekstur fyrirtækisins heldur áfram að þróast í rétta átt og efnahagur þess að styrkjast, en hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði eykst um 10 milljónir dollara milli ára. Nettó skuldir lækka um 126 milljónir dollara (15,6 milljarða króna) á fyrstu sex mánuðum ársins 2019 og fer eiginfjárhlutfall nú í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins yfir 50%. Rekstrartekjur lækka um 4% en til móts hefur rekstrar- og viðhaldskostnaður ásamt vaxtagjöldum lækkað umtalsvert og handbært fé frá rekstri aukist um 7% milli ára. Vegna aðstæðna á alþjóðlegum hrávörumörkuðum er staða stærstu viðskiptavina krefjandi um þessar mundir,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar, í tilkynningunni.

Stikkorð: Landsvirkjun uppgjör