*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 18. febrúar 2021 17:47

Hagnaður Landsvirkjunar lækkar um 32%

Raforkusala Landsvirkjunar dróst saman um 55 milljónir dollara milli ára sem er rúmlega 13% samdráttur.

Ritstjórn
Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar
Haraldur Guðjónsson

Rekstrarhagnaður Landsvirkjunar nam 139 milljónum dollara síðastliðið ár. Það er um 19% samdráttur frá fyrra ári þegar rekstrarhagnaður fyrirtækisins nam 244 milljónum dollara. 

Rekstrartekjur námu 454 milljónum dollara. Raforkusala Landsvirkjunar nam 355 milljónum dollara og lækkaði um 55 milljónir dollara milli ára eða um 13%. Rekstrargjöld lækkuðu um rúmar 10 milljónir dollara og námu 256 milljónum dollara. 

Hagnaður Landsvirkjunar nam 79 milljónum dollara samanborið við 115 milljónir dollara árið áður sem er um 32% samdráttur. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sá mælikvarði gefur besta mynd af grunnrekstri fyrirtækisins, nam 139 milljónum dollara og dróst saman um 28% milli ára. „Þar höfðu mest áhrif minni raforkusala, sértækar aðgerðir fyrir viðskiptavini og tenging raforkuverðs við álverð og Nord Pool verð,“ er haft eftir Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar í tilkynningu fyrirtækisins. 

„Rekstur og afkoma Landsvirkjunar árið 2020 lituðust óhjákvæmilega af áhrifum heimsfaraldursins, sem hafði mikil áhrif á efnahagslífið á Íslandi og í heiminum öllum. Viðskiptavinir okkar drógu margir úr framleiðslu vegna minnkandi eftirspurnar og lækkandi afurðaverðs, auk þess sem orkuverð lækkaði mjög á mörkuðum, þótt sú þróun hafi að nokkru gengið til baka síðla árs. Hluti raforkusamninga Landsvirkjunar er tengdur álverði og verði á raforku á Nord Pool-markaði,“ segir Hörður.

„Árið 2021 byrjar ágætlega, en verð á ál- og Nord Pool mörkuðum hefur hækkað milli ára. Þá var ánægjulegt að fyrr í vikunni undirritaði Landsvirkjun viðauka við raforkusamning við sinn elsta viðskiptavin, Rio Tinto á Íslandi, sem styrkir rekstrargrundvöll álversins á næstu árum og tryggir fyrirsjáanlegt tekjustreymi Landsvirkjunar. 

Þótt erfiðleikar steðji að efnahagslífinu nú um sinn eru viðskiptavinir okkar nú að auka framleiðslu sína og einnig blasa við ýmis tækifæri fyrir Landsvirkjun í framtíðinni, svo sem í grænni vetnisvinnslu, vistvænum iðngörðum og annarri grænni nýsköpun á borð við Orkídeuverkefnið á Suðurlandi, Bláma á Vestfjörðum og EIM á Norðurlandi. Framtíðin ætti því að vera björt, þótt gefið hafi á bátinn í bili.“