Hagnaður Landsvirkjunar á þriðja ársfjórðungi ársins nam 38,8 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar rúmlega 4 milljörðum íslenskra króna.

Á sama tíma í fyrra var hagnaður félagsins tæplega 12,7 milljón Bandaríkjadali, eða sem nemur 1,3 milljarði íslenskra króna. Hefur hagnaðurinn því ríflega þrefaldast, á milli ára, eða sem nemur 206,7% aukning miðað við þriðja ársfjórðung.

Níu mánaða uppgjör Landsvirkjunar sýnir að tekjur fyrirtækisins hækka einnig milli tímabila en hagnaður tímabilsins var 78,5 milljónir Bandaríkjadalir, eða 8,2 milljarðar króna en hann var 47,5 milljónir dalir á sama tímabili árið áður. Það samsvarar ríflega 65% hækkun á milli ára.

EBITDA hlutfall lækkar milli ára

Rekstrartekjur félagsins námu 347,3 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 36,5 milljörðum króna á tímabilinu og hækka þær um 40,2 milljónir dala, eða 13,1% frá sama tímabili árið áður. EBITDA nam 249,6 milljónum Bandaríkjadala eða 26,2 milljarðar króna. EBITDA hlutfall er 71,9% af tekjum, en var 73,5% á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 114,8 milljónum dala, eða 12,1 milljörðum króna, en hann nam 88,8 milljónum á sama tímabili árið áður og hækkar því um 29,4% milli tímabila. Handbært fé frá rekstri nam 200,4 milljónum Bandaríkjadala, eða 21,0 milljörðum króna sem er 16,2% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Álverð hækkaði sem og orkusala jókst

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir að fyrstu níu mánuðir ársins hafi verið hagfelldir í rekstri fyrirtækisins. „Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði hækkaði um 29% frá sama tímabili ársins áður,“ segir Hörður.

„Tekjur jukust, m.a. vegna þess að álverð hækkaði umtalsvert eftir að hafa verið mjög lágt á síðasta ári. Orkusala jókst um 435 Gwst á fyrstu níu mánuðunum og er áfram mikil eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun.

Sterkt sjóðsstreymi stendur að fullu undir umfangsmiklum fjárfestingum á tímabilinu, en þó hefur hægt tímabundið á lækkun skulda á meðan á framkvæmdum við Þeistareyki og Búrfell II stendur. Þeistareykjastöð var gangsett 17. nóvember og senn líður að því að rekstur hennar fari að skila Landsvirkjun tekjum.“