Hagnaður kínverska tölvuframleiðandans Lenovo fyrir annan ársfjórðung nam 214 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 25 milljarða íslenskra króna, og jókst um 23%. Fjallað er um málið á fréttavef BBC.

Veltan á öðrum ársfjórðungi, þ.e. frá apríl til júní, nam 10,4 milljörðum Bandaríkjadala eða 1200 milljörðum króna, og jókst um 18% frá sama tímabili í fyrra.

Lenovo er stærsti framleiðandi einkatölva í heiminum og standa einkatölvur undir nánast helmingi veltunnar á öðrum ársfjórðungi.

Tölurnar benda til þess að Lenovo haldi stöðu sinni sem leiðandi framleiðslufyrirtæki á sviði PC tölva.