Hagnaður kínverska tölvurisans Lenovo jókst um 19% á þriðja ársfjórðungi og nam 262 milljónum bandaríkjadollara, en það jafngildir um 32,5 milljörðum íslenskra króna. Er það nokkru meira en búist hafði verið við.

Tekjur fyrirtækisins jukust jafnframt um 7% og námu 10,5 milljörðum bandaríkjadollara, en voru samt sem áður undir væntingum fyrirtækisins.

Þrátt fyrir þennan aukna hagnað lækkaði gengi hlutabréfa fyrirtækisins eftir birtingu uppgjörsins, en niðurstöðurnar gefa samt sem áður til kynna áframhaldandi eftirspurn eftir vörum fyrirtækisins.