*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 30. apríl 2021 09:50

Hagnaður Lyfju eykst um 149 milljónir

Lyfja segir að álagning á vörum hafi lækkað á síðustu árum, m.a. vegna ákvarðana Lyfjagreiðslunefndar.

Ritstjórn
Framkvæmdastjórn Lyfju
Aðsend mynd

Hagnaður Lyfju nam 438 milljónum króna á síðasta ári, samanborið við 289 milljónir króna árið 2019. Tekjur félagsins jukust um 15% milli ára og námu 12,2 milljörðum króna.

Framlegð af vörusölu nam 33% en álagning Lyfju hefur farið lækkandi undanfarin ár, bæði vegna verðsamkeppni á markaði en einnig vegna ákvarðana Lyfjagreiðslunefndar, að því er segir í fréttatilkynningu Lyfju.  

Fram kemur að fyrirtækið hafi innleidd nýja stefnu í fyrra með umbreytingu verslana, kaupum á rekstri apóteka, opnun nýrra apóteka, markaðsfærslu Lyfju appsins og umbreytingu á vöruvali. Lyfja fjárfesti fyrir alls 412 milljónir króna á árinu 2020.   

„Lyfja lagði mikla áherslu á samfélag og sjálfbærni á árinu, hafa jákvæð áhrif á umhverfið og stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan frá vöggu til grafar. Til að leggja sitt af mörkum bjóðum við hjá Lyfju lágt lyfjaverð um allt land, leggjum áherslu á að kynna samheitalyf sem leið til að lækka lyfjakostnað og fræða almenning um samheitalyf. Þegar lyf eru keypt í Lyfju appinu eru samheitalyf alltaf boðin og þeim er raðað þannig að ódýrasta lyfið birtist efst,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Lyfju.   

Alls starfa tæplega 350 starfsmenn hjá Lyfju samstæðunni í um 240 stöðugildum, um þriðjungur starfsmanna Lyfju eru sérhæfðir heilbrigðisstarfsmenn og 83% starfsmanna eru konur. Beinn launakostnaður og starfsmanntengdur kostnaður vegna Covid nam alls 50 milljónum króna á árinu.    

Stikkorð: Lyfja