Hagnaður Lyfju eftir skatta á árinu 2019 nam 289 milljónum króna og var um 10,8% lægri en árið 2018 þegar hann var 324 milljónir króna. EBITDA félagsins var 968,5 milljónir, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2019.

Vörusala félagsins nam 10,6 milljörðum króna sem er um 8,6% hækkun frá fyrra ári en þá var hún 9,8 milljarðar. Viðskiptavild Lyfju nam tæpum 4 milljörðum í árslok. Eigið fé félagsins stóð í 3,66 milljörðum króna í lok árs, skuldir í 4,15 milljörðum og eiginfjárhlutfall var því 46,9%.

Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 8,5% milli ára úr 2,05 í 2,22 milljarða króna þrátt fyrir óbreyttan meðalfjölda starfsmanna.

Félagið mun ekki greiða út arð á árinu 2020. Félagið SID ehf. eignaðist allt hlutafé í Lyfju í byrjun árs 2019 . Hluthafar í SID eru þrír, SÍA III slhf., framtakssjóður á vegum Stefnis hf. dótturfélags Arion banka, Kaskur ehf. og Þarabakki ehf. Sigríður Margrét Oddsdóttir er framkvæmdastjóri Lyfju.