Hagnaður Lykils fjármögnunar hf. dróst saman um 41,4% á milli áranna 2017 og 2018, eða úr tæplega 2,1 milljarði króna í 1,2 milljarða. Þar af nam tekjufærð tekjuskattsinneign 98 milljónum króna, sem er mikil lækkun frá fyrra ári þegar félagið tekjufærði 991 milljón króna. Leggur stjórn félagsins til að greiddur verði út 1,2 milljarðar króna í arð.

Hreinar vaxtatekjur félagsins jukust á milli ára úr tæpum 2 milljörðum árið 2017 í 3,4 milljarða í fyrra, á sama tíma og vaxtagjöldin jukust úr 656 milljónum í 1.124 milljónir. Því drógust hreinu vaxtatekjurnar saman um 4%, úr 1.316 milljónum í 1.264 milljónir króna.

Heildar tekjur félagsins námu 3,2 milljörðum króna, sem er hækkun um 21,6% frá fyrra ári, en rekstrarkostnaður félagsins hækkaði um 8,1% og nam tæplega 1,2 milljörðum króna. Tekjur félagsins af rekstrarleigu jukust um fjórðung, eða 154 milljónir frá fyrra ári, og námu 772 milljónum króna.

Hrein virðisbreyting eigna var þó 27,4% minni í ár en í fyrra, fór úr 604 milljónum króna í 438 milljónir króna. Arsemi eigin fjár var 9,3%, reiknað eiginfjárhlutall 35,5% og eigið fé félagsins nam 12,6 milljörðum, sem er lækkun frá fyrra ári þegar það var 13,3 milljörðum. Heildareignir í lok árs 2018 námu tæplega 38 milljörðum, sem er aukning um 19,2% eða 6,1 milljarð.