Lykill fjármögnun hagnaðist um 344 milljónir króna á síðasta ári, sem er 71,6% samdráttur frá 1.212 milljóna króna hagnaði árið áður. Segir félagið ástæðuna vera virðisbreytingar og að bókfærð tekjuskattsinneign hafi komið til hækkunar á hagnaði ársins 2018.

Heildartekjur Lykils, sem er í eigu TM, jukust um 19,9% á á síðasta ári miðað við árið áður og námu 3.817 milljónum króna. Þar af jukust hreinar vaxtatekjur um 11,9%, úr 2,3 milljörðum í ríflega 2,8 milljarða króna. Rekstrarleigutekjurnar jukust um 9,2%, úr 772,4 milljónum í 843,6 milljónir króna.

Rekstrarkostnaðurinn hækkaði milli ára um 10,0%, í nærri 1,3 milljarða króna, en félagið segir ástæðuna einskiptiskostnað. Í ársreikningi eru gjaldfærðar áætlaðar kaupaukagreiðslur upp á tæplega 55 milljónir króna fyrir árið 2019, en 40% af því er frestað um þrjú ár.

Þrátt fyrir það lækka laun og hlunnindi Lilju Dóru Halldórsdóttur framkvæmdastjóra úr 52,3 milljónum fyrir árið í 49,7 milljónir króna, eða úr tæplega 4,4 milljónum á mánuði í ríflega 4,1 milljón á mánuði.

Hrein virðisbreyting eigna var neikvæð um 197 milljónir króna, sem er viðsnúningur frá árinu 2018 þegar hún var jákvæð um 438 milljónir króna. Arðsemi eigin fjár var 2,8%. Eigið fé félagsins lækkaði um 786,6 milljónir króna milli ára, úr 12,6 milljörðum í ríflega 11,8 milljarða króna, meðan skuldirnar jukust um fjórðung, eða úr 25,3 milljörðum í 31,5 milljarða króna.

Þar með jukust eignir félagsins um 14,7%, úr 37,9 milljörðum í 43,5 milljarða króna, og lækkaði jafnframt eiginfjárhlutfallið úr 33,3% í 27,3%. Svokallað reiknað eiginfjárhlutfall (CAD) nam hins vegar 28,1%.