Hagnaður Lykils fjármögnunar, dótturfélags Klakka sem var nokkuð í umræðu á síðasta ári vegna bónusgreiðslna , jókst um næstum 52% árið 2017 miðað við fyrra ár, og nam hann tæplega 2,1 milljarði á árinu. Jukust heildareignir félagsins um 5,8 milljarða og námu þær í árslok um 31,8 milljörðum króna. Félagið hyggst greiða hluthöfum sínum, áðurnefndu félagi Klakki ehf. 940 milljónir króna í arð.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun mánaðarins var Klakka bannað að greiða bónusa, en áður hafði félagið talið sig hafa heimild til þess . Byggðust áætlaðar bónusgreiðslur á því hve vel gengi að selja Lykil sem nú er í söluferli , en heildargreiðslurnar hefðu getað numið um 550 milljónum ef besta árangrinum væri náð, sem myndi þýða um 60 milljónir á æðstu stjórnendur .

Tekjurnar jukust en rekstrarkostnaður lækkaði

Heildar tekjur Lykils fjármögnunar hf. á síðasta ári voru 2.616 milljónir króna, sem er um 9% hækkun frá fyrra ári. Hækkuðu vaxtatekjur á sama tíma og rekstrarkostnaður fyrirtækisins lækkaði á milli ára. Jafnframt var hrein virðisbreyting jákvæð.

Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu voru 1.319 milljónir króna sem er 8,5% lækkun frá árinu 2016, en um 2,2% hækkun ef tekið er tillit til einskiptisliða s.s. dráttarvaxta. Rekstrarkostnaður var 1.086 milljónir króna og lækkar um 4,1% frá fyrra ári. Ef tekið er tillit einskiptisliðar á árinu 2016 nemur lækkunin 9,5% á milli ára.

Hrein virðisbreyting var jákvæð um 604 milljónir króna sem er 17,2% lækkun frá fyrra ári. Hagnaður ársins var 2.067 milljónir króna sem er 51,9% hækkun milli ára, en þar af var  tekjuskattsinneign að fjárhæð 991 milljónir króna tekjufærð á tímabilinu en áætlanir félagsins til næstu ára gera ráð fyrir að félagið geti nýtt inneignina á móti skattskyldum hagnaði.

Arðsemi eigin fjár var 16,4%. Heildareignir í lok tímabilsins voru 31.778 milljónir króna og jukust um 5.816 milljónir króna, eða 22,4%. Eigið fé í lok árs var 13.323 milljónir króna, en reiknað eiginfjárhlutfall (CAD) er 46,6%. Með hliðsjón af sterkri fjárhagsstöðu félagsins leggur stjórn til við hluthafafund að greiddur verði arður sem nemur 940 milljónum króna.

Lesa má eldri fréttir um félögin hér: