Hagnaður Lýsis hf. dróst saman um 41,2% á milli áranna 2017 og 2018, eða úr rétt rúmlega 41,6 milljónum í 24,4 milljónir króna. Á sama tíma jukust tekjur félagsins frá 8,2 milljarða króna í 9,6 milljarða eða um rúmlega 17%. Hagnaður félagsins áður en tekið er tillit til fjármagnsliða fór hins vegar úr 192 milljónum í 887 en þar vegur mest að aðrar tekjur félagsins hækkuðu frá 27,3 milljónum árið 2017 yfir í 119,6 árið 2018. Gengismunur hefur mikil áhrif á hagnað félagsins en hann var neikvæður um 444,7 milljónir króna árið 2018 en jákvæður um 215,2 árið 2017.

Framleiðslukostnaður jókst töluvert á milli ára eða frá um 6,6 milljörðum yfir í 7,2 sem gerir um 10% hækkun á milli ára.

Eignir félagsins námu um 11,67 milljarða íslenskra króna og hækkuðu lítillega frá fyrra ári eða um 0,3%. Eigið fé félagsins nam um 2,6 milljarða króna og var lítil breyting þar á en skuldir félagsins jukust úr 8,74 milljarða í 9,07 eða um 3,7%.

Hluthafar félagsins eru 7 talsins en þar á Ívar ehf. í mestan hlut eða 85,64%. Þar á eftir kemur félagið Hydrol ehf. sem á 6,3% en sá sem á þriðja mesta hlut er Pétur Pétursson eða um 2,39%. Stjórn félagsins hefur ákveðið að greiða ekki út arð.