*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Erlent 16. maí 2019 14:09

Hagnaður Man Utd eykst

Forstjóri Manchester United segir félagið vel í stakk búið til að styðja við Ole Gunnar Solskjær.

Ritstjórn
Ole Gunnar Solskjær og aðstoðarmaður hans, Mike Phelan hafa verk að vinna í sumar.
epa

Enska knattspyrnuliðið Manchester United hagnaðist um 7,7 milljónir punda á fyrstu þremur mánuðum ársins samanborið við 6,9 milljónir árið 2018. Þetta kemur fram í uppgjör félagsins fyrir þriðja ársfjórðungs reikningsár þess sem nær frá 1. júlí til 30 júní.

Tekjur félagsins námu 152,1 milljón punda á fjórðungnum og jukust um 3,4% milli ára. Þá nam EBITDA 41,2 milljónum punda og dróst saman um 9,9% milli ára.

Hagnaður félagsins á fyrstu níu mánuðum reikningsársins nam 41,1 milljón samanborið við 3,2 milljón punda tap á sama tímabili ári áður. Þá jukust tekjur um 5,9% og námu 495,7 milljónum punda á fyrstu 9 mánuðum reikningsársins. 

Gera má ráð fyrir að afkoma félagsins muni versna á komandi misserum enda mistókst liðinu að vinna sér inn þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili sem hefur talsverð áhrfi á tekjur félagsins. Kemur það bæði til af sjónvarpsréttasamningum en auk þess eru sumir styrktarsamningar sem lækka komist liðið ekki í keppnina.

Ed Woodward, forstjóri Manchester United, sem hefur verið umdeildur af stuðningsmönnum liðsins lét hafa eftir sér í uppgjörinu að eftir stormasamt tímabil séu allir hjá félaginu einbeittir að því að vinna að þeim árangri sem félagið búist við og stuðningsmennirnir eigi skilið. Hann sagði að undirbúningur fyrir næsta tímabil væri nú þegar hafinn og undirliggjandi rekstur félagsins hafi burði til að styðja við Ole Gunnar Solskjær, þjálfara félagsins. 

Búist er við því að Manchester United verði stórtækt á leikmannamarkaðnum í sumar eftir vægast sagt brösugt tímabil í vetur. 

Stikkorð: Manchester United