Verulegur samdráttur varð í afkomu verkfræðistofunnar Mannvits í fyrra í samanburði við árið 2011. Hagnaður árið 2012 nam 6,4 milljónum króna, en árið á undan nam hagnaður fyrirtækisins 751,2 milljónum.

Velta dróst saman um 237 milljónir milli ára og nam 4.581 milljón í fyrra. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um tæpar 120 milljónir og nam 4.393 milljónum. Liðurinn aðkeypt þjónusta hækkaði mest milli ára og fór úr 83,6 milljónum árið 2011 í 210,7 milljónir í fyrra. Rekstrarhagnaður minnkaði því úr 542,1 milljón í 187,8 milljónir. Þá voru áhrif dótturfélaga neikvæð um 139,3 milljónir í fyrra, en voru jákvæð um 304,2 milljónir árið 2011.

Eignir Mannvits minnkuðu um rúman hálfan milljarð króna milli ára og námu 3.494 milljónum króna, en breytingin skýrist að stærstum hluta af minnkun í eignarhlutum í dótturfélögum. Skuldir minnkuðu um tæpar 140 milljónir og námu 1.758,4 milljónum króna í árslok 2012. Eigið fé félagsins nam 1.736,1 milljón króna.