Afkoma Marel á þriðja ársfjórðungi 2020 var jákvæð um 29,4 milljónir evra, jafnvirði 4.837 milljónum króna og dróst saman um tólf prósent samanborið við sama tímabil fyrra árs þegar hagnaðurinn nam 33,4 milljónum evra. Pantanir lækkuðu lítillega milli ára og námu 282,5 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi 2020.

Rekstrarhagnaður (EBIT) Marel á þriðja ársfjórðungi 2020 nam 44,1 milljón evra og var nær óbreyttur milli ára. EBIT var 15,4% af tekjum félagsins samanborið við 14,2% á sama tímabili fyrra árs. Hagnaður á hlut var 3,93 evru sent á þriðja ársfjórðungi 2020 en 4,38 evru sent á hvern hlut árið áður. Samdráttur nemur tíu prósentustigum.

Sjá einnig: Marel hefur hækkað um 50% síðan í mars

Í lok þriðja ársfjórðungs stóð pantanabókin í 434,3 milljónum evra. Hún stóð í 439 milljónum evra í lok annars ársfjórðungs en 431,9 milljónum í lok þriðja ársfjórðungs 2019. Tekjur Marel á þriðja ársfjórðungi 2020 drógust saman um átta prósent milli ára og námu 287 milljónum evra, jafnvirði rúmlega 47 þúsund milljónum króna. Tekjur á fyrstu níu mánuðum ársins drógust saman um sjö prósent samanborið við sama tímabil fyrra árs.

Hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi 2020 nam tæplega 31 milljón evra, andvirði 5.051 milljón króna og dróst saman um ríflega tíu prósent milli ára, í evrum talið. Eftir lokun markaða í dag var markaðsvirði Marel um 568 milljarðar króna og er félagið langverðmætasta félagið sem skráð er í kauphöll Íslands. Næst verðmætasta félagið er Arion banka sem er virði um 137 milljarða króna.

Sjá einnig: Keyptu í Marel fyrir 13 milljarða

Á morgun, miðvikudaginn 21. október 2020, kl. 8:30 verður haldinn afkomufundur fyrir markaðsaðila og fjárfesta. Fundurinn verður eingöngu rafrænn en þar munu Árni Oddur Þórðarson forstjóri og Linda Jónsdóttir fjármálastjóri kynna afkomu félagsins og helstu atriði úr rekstri á þriðja ársfjórðungi.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri:

„Við erum ánægð með afkomuna á þriðja ársfjórðungi og það sem af er ári og erum áfram bjartsýn á framtíðarhorfur félagsins. Mótteknar pantanir á þriðja ársfjórðungi og á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 eru á pari við sömu tímabil á síðasta ári. Eftirspurn er mikil eftir aukinni sjálfvirkni og sveigjanleika í framleiðslu á matvælamarkaði til að mæta eftirspurn sem sveiflast milli smásöluverslunar og veitingageirans. Breytingarnar eru  örar og drifnar áfram af neytendum um allan heim sem sækjast eftir fjölbreyttum, hollum og hagkvæmum afurðum sem tilbúnar eru til eldunar. Stafrænar lausnir Marel og alþjóðlegt sölu- og þjónustunet félagsins sem er til staðar í hverri heimsálfu eru lykillinn að árangri félagsins á þessum krefjandi tímum.

Á þriðja ársfjórðungi nema tekjurnar 287 milljónum evra með EBIT framlegð upp á 15,4%. Enda þótt tekjur séu lægri en á sama fjórðungi í fyrra skilum við sambærilegu EBIT í fjórðungnum að fjárhæð 44 milljónir evra. Þessi góða afkoma er drifin áfram af sterkri framlegð sem byggist á góðu hlutfalli háframlegðar vara og þjónustu, með vel skipulagðri framleiðslu og afhendingu og almennt lægri rekstarkostnaði.

Sérfræðingar í iðnaðarsetrum félagsins styðja við sölu- og þjónustufólk Marel um allan heim með stafrænum lausnum sem hefur leitt til minni ferðalaga og með þessu móti höfum við lækkað kostnað og minnkað kolefnisfótspor félagsins.  Búist var við því að þessi þróun myndi taka mörg ár en faraldurinn hefur nú hraðað henni verulega.“