*

laugardagur, 20. júlí 2019
Innlent 25. júlí 2018 17:16

Hagnaður Marel eykst milli ára

Afkoma Marel á öðrum ársfjórðungi var í takt við væntingar greiningaraðila. Félagið hefur náð samkomulagi um kaup á þýska fyrirtækinu MAJA sem framleiðir búnað fyrir matvælavinnslu.

Ástgeir Ólafsson
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel
Haraldur Guðjónsson

Marel hagnaðist um 29,5 milljónir evra eða því sem nemur rúmlega 3,6 milljörðum króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs. Hagnaður félagsins á sama tímabili í fyrra nam 18,6 milljónum evra. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri félagsins sem birt var fyrir skömmu.

Afkoma er fjórðungsins er í samræmi við væntingar greiningaraðila en meðaltal þeirra þriggja afkomuspáa  sem Viðskiptablaðið komst yfir gerði ráð fyrir að hagnaður á tímabilinu myndi nema 29,5 milljónum evra. Spár greiningaraðila voru á bilinu 28-31,4 milljónir evra.

Tekjur félagins á tímabilinu námu 296,7 milljónum evra samanborið við 244 milljónir evra á sama ársfjórðungi í fyrra. EBITDA á fjórðungnum nam 53,9 milljónum evra sem var lægra en spár greiningaraðila höfðu gert ráð fyrir. Meðaltal af EBITDA-spám greiningaraðila var 55,6 milljónir evra og voru spárnar á bilinu 54,8-56,5 milljónir evra. 

Leiðréttur rekstrarhagnður (adjusted EBIT) nam 43,2 milljónum evra. Pantanir á öðrum ársfjórðungi námu 291,1 milljónum evra samanborið við 272,7 milljónir á sama tíma í fyrra.Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 56,4 milljónum evra. Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x1,8 í lok júní samanborið við x2,0 við lok mars 2018, markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3. Pantanabók félagsins stóð í 523,2 milljónum evra við lok fjórðungsins.

Gengi hlutabréfa Marel stóð í 390 krónum á hlut við lokun markaða í dag. Bréf félagsins eru í hæstu hæðum og hafa hækkað um 23% það sem af er þessu ári. Þá verðmetur greiningarfyrirtækið IFS Greining bréf félagsins á 456,5 krónur á hlut eins og Viðskiptablaðið greindi frá á dögunum.

Í tilkynningu Marel er eftirfarandi haft eftir Árna Odd Þórðarsyni, forstjóra Marel:

“Við höldum góðum takti frá síðasta uppgjöri og skilum mettekjum og stöðugri rekstrarframlegð á öðrum ársfjórðungi. Á fyrstu sex mánuðum ársins var 18% vöxtur í bæði tekjum og EBIT miðað við sama tímabil í fyrra. Hugvit og samheldni okkar 5.500 starfsmanna, ásamt góðu samstarfi við viðskiptavini og birgja, eru forsenda þess að ná fram þeim mikla innri vexti sem við gerum ráð fyrir í ár. Pantanabókin er sterk og kröftugt sjóðstreymi styður við áframhaldandi fjárfestingar til frekari vaxtar og verðmætasköpunar. 

Það er okkur ánægja að tilkynna að Marel hefur náð samkomulagi um kaup á MAJA. MAJA er þýskur framleiðandi á búnaði fyrir matvælavinnslu, með megináherslu á kjötiðnað og klakavélar fyrir varðveislu og framsetningu á ýmsum matvælum. Í gegnum samstarf MAJA og Sulmaq í Brasilíu síðastliðin ár, höfum við fengið innsýn í öfluga vöruþróun og góðan rekstur þessa fjölskyldufyrirtækis. Innan fyrirtækisins starfa um 200 starfsmenn og eru árlegar tekjur þess um 30 milljónir evra. Áætlað er að kaupin gangi í gegn síðar á þessu ári.

Aðstæður á mörkuðum Marel hafa verið óvenju góðar síðustu misseri. Við gerum ráð fyrir því að nú hægist á vexti markaðar og færist þannig nær meðalvexti síðustu ára. Með öflugri markaðssókn og nýsköpun, ásamt kaupum á fyrirtækjum, hyggst félagið vaxa umfram almennan markaðsvöxt til lengri tíma.“

Stikkorð: Marel