Hagnaður Marels á fyrsta ársfjórðungi nam 8,8 milljónum evra, jafnvirði um 1,5 milljarða króna, samanborið við 5,6 milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði,afskriftir og skatta (EBITDA) var 17,1 milljón evra eða um 11,2% af tekjum. Þær námu 153,5 milljónum evra, sem er 19,1% aukning frá fyrsta ársfjórðungi 2010.

Marel birti ársfjórðungsuppgjör sitt í dag. Í tilkynningu um uppgjör segir að pantanabók félagsins haldi áfram að styrkjast í takt við stöðugt framboð nýrra vara og hagstæða markaðsaðstæðna. Fyrirliggjandi pantanir námu 169,3 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs.

Theo Hoen, forstjóri Marels, segir að langtímamarkmiði um rekstrarhagnað upp á 10-12% af veltu hafi náðst. „Árið fer vel af stað og við erum ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs. Það er góður vöxtur hjá okkur miðað við sama tímabil fyrir ári, hagnaður hefur aukist og það er gott jafnvægi milli þeirra fjögurra geira sem við sérhæfum okkur í. Enn á ný náðum við langtímamarkmiði okkar um rekstrarhagnað upp á 10-12% af veltu.

Pantanastaðan er áfram góð og virði fyrirliggjandi pantana aldrei verið hærra. Stórar pantanir berast nú jafnt og þétt og sala staðlaðra lausna er stöðug. Við njótum enn góðs af því að hafa á undanförnum tveimur árum fjárfest af sama krafti og áður í nýsköpun og vöruþróun. Sú velgengni sem nýja IBS 4600 beikonskurðarvélin okkar naut í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi er skýrt dæmi um það.

Akoman á fyrsta ársfjórðungi og vaxandi pantanabók gefa góð fyrirheit fyrir árið í heild,“ segir Theo Hoen í tilkynningu.

Ársfjórðungsuppgjör Marels .