Hagnaður Marriott-hótelkeðjunnar nam 181 milljón dala, jafnvirði 23 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er 28% aukning á milli ára. Hagnaðurinn jafngildir 41 sent á hlut. Ef einskiptikostnaður er undanskilinn var afkoman öllu betri eða sem nemur 56 sentum á hlut.

Tekjur námu 3,76 milljörðum dala á tímabilinu sem er 2% aukning á milli ára. Þetta er nokkurn veginn í takti við væntingar markaðsaðila, að sögn Reuters-fréttaveitunnar. Betri nýting á herbergjum og verðhækkun setur mark sitt á afkomu hótelkeðjunnar. Reuters-fréttastofan hefur eftir forsvarsmönnum fyrirtækisins að búast megi við því að verð á hótelherbergjum muni hækka frekar á þessu ári.

Stefnt hefur verið að því um nokkurt skeið að reisa hótel undir merkjum Marriott við tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu í Reykjavík.