Tekjur bandarísku skyndibitakeðjunnar McDonald's halda áfram að dragast saman og nam samdráttur teknanna 11% á fyrsta ársfjórðungi. Námu þær 5,96 milljörðum dala á tímabilinu. Forbes greinir frá þessu.

Hagnaður fyrirtækisins nam 812 milljónum bandaríkjadala á tímabilinu. Á sama tíma í fyrra nam hann hins vegar 1,2 milljarði dala og hefur hagnaðurinn því dregist saman um þriðjung.

Skyndibitakeðjan hefur átt erfitt uppdráttar að undanförnu og skipti nýlega út framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Vonir stóðu til þess að hinum nýja framkvæmdastjóra tækist að glæða rekstrinum lífi að nýju, en þessar tölur gefa hins vegar annað til kynna.

Þrátt fyrir þetta hækkaði gengi hlutabréfa í fyrirtækinu um 2% eftir tíðindin þar sem það tilkynnti einnig að væntanleg væri áætlun um viðsnúning á rekstrinum.