Bandaríski skyndibitarisinn McDonalds hagnaðist um 1,4 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi og jókst hagnaður um rúm 28% frá sama tímabili í fyrra. Þrátt fyrir betri afkomu drógust tekjur saman um 220 milljónir dollara miðað við árið í fyrra en voru hærri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal er aukinn hagnaður rakinn til þess að fyrirtækið bíður nú upp á drykki fyrir einn dollara og nýrrar línu af hamborgurum. Sala á sölustöðum McDonalds jókst um 6,6% á heimsvísu og um 3,9% í Bandaríkjunum.

Hagnaður á hlut nam 1,7 dollurum en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir að hagnaður á hlut yrði 1,62 dollarar. Gengi hlutabréfa McDonalds hefur hækkað um 4,1% það sem af er degi og stendur nú í 158,08 dollurum á hlut. Gengi bréfanna hefur hækkað um tæp 30% það sem af er ári.