Hagnaður Melabúðarinnar árið 2019 jókst um 25,5% frá fyrra ári, úr 15,8 milljónum króna í 19,9 milljónir króna. Velta verslunarinnar nam 1,1 milljarði króna og jókst um 4,8% milli ára. Rekstrarhagnaður nam 17,8 milljónum króna og jókst um 11,8% milli ára.

Laun og launatengd gjöld námu 181,2 milljónum króna og jukust um 2,9% milli ára, en á árinu störfuðu tólf starfsmenn í fullu starfi og 36 í hlutastarfi.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 72,5% í árslok, sem er aukning um níu prósentustig milli ára. Eignir félagsins lækkuðu um 8,1% milli ára, úr 340,8 milljónum króna í 313,3 milljónir, en skuldir lækkuðu um 30,8%, úr 124,4 milljónum króna í 86,1 milljón.

Í skýrslu stjórnar með ársreikningi Melabúðarinnar kemur fram að framtíðarhorfur félagsins séu góðar og að stjórn félagsins telji að reksturinn muni skila hagnaði á árinu 2020.

Ekki verður greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2019. Síðast var greiddur arður til hluthafa vegna ársins 2017, þá 25 milljónir króna. Pétur Alan Guðmundsson, framkvæmdastjóri Melabúðarinnar, á 55% hlut í félaginu og Snorri Örn Guðmundsson á 45% hlut.