Bandaríski tæknirisinn Microsoft hagnaðist um 5 milljarða Bandaríkjadali á síðasta ársfjórðungi og dróst hagnaðurinn saman um 12% á milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu .

Sterkari bandaríkjadalur hafði umtalsverð áhrif á afkomu fyrirtækisins, að því er fram kemur í tilkynningunni. Þá hafði endurskipulagning innan fyrirtækisins einnig mikinn kostnað í för með sér en hann nam um 190 milljónum dala.

Tekjur fyrirtækisins á tímabilinu námu í heildina 21,7 milljörðum dala og voru því hærri en á sama tíma í fyrra þegar þær námu 20,4 milljörðum. Á tímabilinu greiddi fyrirtækið 7,5 milljarða dala út til hluthafa í formi arðgreiðslna og kaupa á eigin bréfum.