Bandaríski hugbúnaðarframleiðandinn Microsoft hagnaðist um 5,7 milljarða Bandaríkjadali á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 5,4 milljarða dali á sama tíma í fyrra sem þýðir 6% aukning á milli ára.

Í uppgjörstilkynningu frá Microsoft kemur fram að hagnaðaraukninguna megi fyrst og fremst rekja til aukinna sölu á Windows stýrikerfinu en tekjur félagsins á tímabilinu námu um 17,4 milljörðum dala, sem er met á þriðja ársfjórðungi.

En þó svo að salan á Windows 7 stýrikerfinu hafi aukist á milli ára reiðir Microsoft sig að mestu á sölu stýrikerfisins til fyrirtækja. Viðmælendur bæði Reuters og Bloomberg telja að einstaklingar séu annað hvort að bíða eftir Windows 8, sem verður kynnt á næsta ári, eða hafa einfaldlega snúið sér að Apple tölvum og þá sérstaklega hinum sívinsæla iPad og það kunni að skýra minni sölu á Windows til einstaklinga.

Uppgjör Microsoft er í takt við væntingar greiningaraðila vestanhafs. Það sem þó vekur athygli er að síðustu 10 ársfjórðunga, þ.e. frá lok árs 2007, hefur uppgjör félagsins ávallt farið nokkuð fram úr væntingum. Það kann að útskýra 0,5% lækkun á gengi hlutabréfa Microsoft við lokun markaða vestanhafs í dag.