Bandaríski hugbúnaðarrisinn Microsoft skilaði hagnaði upp á 5,66 milljarða dala á fyrsta ársfjórðungi. Þetta til samanburðar nam hagnaðurinn 6,06 milljörðum dala á sama tíma fyrir ári. Hagnaðurinn jafngildir 68 sentum á hlut sem er fjórum sentum minna en fyrir ári. Afkoman er yfir væntingum markaðsaðila.

Fram kemur í uppgjöri Microsoft tekjur námu 20,4 milljörðum dala sem er sambærilegt og fyrir ári. Þetta er í efri mörkum þess sem markaðsaðilar höfðu væntingar um.

Í uppgjörinu segir að tekjur af sölu tækja og hugbúnaðar undir merkjum Microsoft hafi numið 8,3 milljörðum dala og var það 12% meira en fyrir ári. Á meðal tækjanna er 1,2 milljónir stykkja af Xbox-leikjatölunni á fjórðungnum.

Netmiðillinn Newsday hefur eftir Satya Nadella, sem tók við forstjórastarfinu hjá Microsoft nýverið, að kaup á skýjaþjónustu ýmis konar hafi aukist mikið. Tók hann svo djúpt í árinni að fullyrða að gullæði væri að grípa um sig hvað tölvuský snerti.