Tryggingafélagið Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir á síðasta ári en það er 37% minni hagnaður en árið áður. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins fyrir árið 2105. Þar kemur fram að tjón tímabilsins jukust um 20,2% á milli ára og eigin tjón um 18,6%. Heildartekjur jukust um 27,2% á sama tímabili en þær námu tæpum 18 milljörðum króna á síðasta ári.

Samsett hlutfall nam 103,9% á árinu 2015 samanborið við 96% á árinu 2014.

Ávöxtun eignasafna félagsins nam 3,7% á ársfjórðungnum og 15,6% á árinu 2015. Mestri ávöxtun skiluðu hlutabréf, 12,9% á fjórðungnum og 53,3% á árinu. Helsta breyting á fjárfestingarsafni félagsins á árinu samkvæmt fréttatilkynningu sem það sendi Kauphöllinni var að félagið bætti við eign sína í hlutabréfum og jók hlutfall þeirra á kostnað skuldabréfa.

Í tilkynningunni segir Hermann Björnsson, forstjóri félagsins, að afkoman sé góð og að það helgist fyrst og fremst af góðum árangri af fjárfestingastarfsemi. Afkoma skaðatrygginga olli félaginu vonbrigðum en mikill munur var á afkomu einstakra greina.

„Staða Sjóvár er sterk og félagið vel í stakk búið til að sinna því hlutverki að bæta tjón viðskiptavina og mæta þeim sveiflum sem óhjákvæmilega verða, hvort sem litið er til veðurfars eða stærri tjónsatburða. Af þeim sökum kann afkoma félagsins að sveiflast á stuttum tímabilum en er jafnari yfir lengra tímabil,“ segir Hermann.