Bandaríski fjárfestingarbankinn Morgan Stanely hagnaðist um 2,2 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 277,6 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi, en það er um 10% samdráttur frá sama tíma fyrir ári.

Þrátt fyrir það fór hagnaðurinn fram úr væntingum greinenda sem búist höfðu við 1,9 milljarða dala hagnaði. Á sama tíma lækkuðu tekjur bankans, að frádregnum ákveðnum kostnaðarliðum, um 3,7%, niður í 10,2 milljarða dala, en greinendur höfðu búist við að tekjuliðurinn yrði í 10 milljörðum.

Bankinn, sem er sá smæsti af stóru bönkunum í Bandaríkjunum, er sá síðasti í röðinni til að birta uppgjör fyrir tímabilið, en lægri vextir og tolladeilur virðast hafa áhrif á rekstur allra bankanna.

Þrátt fyrir þetta jukust tekjurnar af eignastýringarhluta Morgan Stanley um 21% milli ára, en bankastjórinn James Gorman hefur lagt áherslu á að stækka þann hluta rekstrarins sem stýrir um 500 milljörðum dala.

Hins vegar drógust tekjur af sölu og viðskiptum með skulda- og hlutabréf saman um 12%, meðan til að mynda Goldman Sachs hefur aukið við hlut sinn í hlutabréfum á sama tíma og samdráttur hefur verið í skuldabréfunum. Einnig drógust tekjur bankans af fjárfestingarbankaviðskiptum saman, eða um 13%, meðan innlán jukust um 2%, í 177 milljarða dala.