Bandaríski bankinn Morgan Stanley hagnaðist um 1,52 milljarða dollara á þriðja ársfjórðungi. Hagnaður bankans stóreykst milli ára, eða um 63%. Þetta kemur fram í frétt Reuters .

Þrátt fyrir ákvörðun Bretlands um að yfirgefa Evrópusambandið — sem margir töldu að myndi hafa neikvæð áhrif á bankana, þá standa bandarískir bankar nokkuð vel, en þrír af stærstu viðskiptabönkum Bandaríkjanna; Morgan Stanley, Bank of America og Goldman Sachs skila ríflegum hagnaði.

Hagnaður bankans var meiri en spár gerðu ráð fyrir. Tekjur á hvert hlutabréf jukust úr 48 sentum upp í 81 sent. Í kjölfar birtingar ársreikningsins hækkuðu hlutabréf í Morgan Stanley á mörkuðum um 0,7%.

Morgan Stanley hefur lagt mikla áherslu á niðurskurð upp á síðkastið og stefna að því að skera niður fyrir um milljarð dollara fyrir árið 2017.