Hagnaður Mosfellsbakarís ehf. margfaldaðist á síðasta ári og nam um 14 milljónum króna miðað við einnar milljónar hagnað árið 2019.

Þrátt fyrir nokkuð aukin hagnað varð 3% tekjusamdráttur hjá bakariínu en tekjur lækkuðu úr 607 milljónum króna 589 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBIDTA) nam 40 milljónum króna miðað við 24 milljónir árið áður. Félagið greiddi arð fyrir um 18 milljónir króna á árinu en engan árið áður.

Rekstrargjöld fyrirtækisins lækkuðu hins vegar um 6% á tímabilinu og námu 548 milljónum króna. Þar munaði mestu um vörunotkun sem nam 148 milljónum króna og lækkaði um rúm 14% á tímabilinu og launakostnað en hann lækkaði um 4% og nam 283 milljónum.

Eignir bakarísins námu 184 milljónum króna á árinu og eigið fé 49 milljónum. Félagið á einnig einnar milljónar hlut í Icelandair og var markaðsverð hans 1,84 milljónir króna í lok árs. Eigið fé lækkaði um fjórar milljónir á tímabilinu en skuldir jukust um 21 milljón króna. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok árs var 26% en það var 32% árið áður.

Handbært fé í árslok var 53 milljónir króna miðað við 25 milljónir árið áður. Stærstu hluthafar félagsins eru þau Hafliði Ragnarsson sem á 60% hlut í félaginu og Linda Björk Ragnarsdóttir sem á 40% hlut.