Afkoman af rekstri Mjólkursamsölunnar var hagnaður fyrir skatta að fjárhæð 322 milljónir króna, sem er 1,3% af veltu félagsins og hefur batnað um 114 milljónir króna milli ára, kemur þetta fram í frétt á vefsíðu Landssambandi kúabænda.

Þar segir að afkomubatann megi rekja til aukinna umsvifa félagsins á erlendum markaði þar sem MS hafi hagnað af eigin viðskiptum með skyr og af leyfisgjöldum frá fyrirtækjum sem framleiða skyr með leyfissamningum. Afkoman af rekstri fyrir afskriftir og fjármagnskostnað árið 2014 var 1.148 milljónir króna og batnaði um 370 milljónir króna milli ára.

Einar Sigurðsson, forstjóri Mjólkursamsölunnar, bendir á að þessi afkoma sé ekki hátt hlutfall af 24,5 milljarða króna veltu fyrirtækisins. Þetta endurspegli sérstaka stöðu Mjólkursamsölunnar. Fyrirtækið verðleggi ekki eigin afurðir. Það sé ekki stefna fyrirtækisins að hámarka hagnað í starfseminni heldur lágmarka kostnað og skila ábata af árangri í rekstrinum til neytenda og til bænda í gegnum verðlag á hráefni og afurðum.

Aukin eftirspurn eftir fituríkari afurðum frá 2011 nemur framleiðslu 150 kúabúa, að því er segir í fréttinni. Slíkum vexti sé afar erfitt að mæta þegar haft sé í huga að það taki þrjú ár að ala upp gripi til mjólkurframleiðslu. Það sé líka rétt að hafa hugfast að eftirspurn eftir próteinhluta mjólkurinnar sé mun minni en eftir fituhlutanum. Það hafi því þyngt rekstur Mjólkursamsölunnar að yfirborga hluta framleiðslunnar til að skapa bændum hvata til að framleiða meira og tryggja nægjanlegt framboð.