*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 25. apríl 2018 16:13

Hagnaður N1 minnkar um þrjá fjórðu

N1 hagnaðist um 61 milljónir á 1. ársfjórðungi en á sama tíma fyrir ári var hann 231 milljón króna. Nemur lækkunin um 74%.

Ritstjórn
Eggert Þór Kristófersson er forstjóri N1.
Aðsend mynd

Hagnaður olíufélagsins N1 fyrstu þrjá mánuði ársins nam tæplega 76,5 milljónum króna, á sama tíma fyrir ári nam hagnaðurinn 225 milljónum króna. Það er fyrir utan þýðingarmun vegna starfsemi erlends hlutdeildarfélags, en með 15,4 milljóna tapi af starfsemi þess í ár fór hagnaður samsteypunnar niður í 61 milljón krónur í ár, en tapið af starfseminni færði hagnaðinn niður í 231 milljón fyrir ári.

EBITDA félagsins nam 436 milljónir króna á ársfjórðungnum en á sama tíma fyrir ári var kennitalan 521 milljón króna. Er það að undanskilnum kostnaði við kaup á Festi. Framlegð af vörusölu félagsins minnkaði um 1% á ársfjórðungnum, en eldsneytismagnið sem félagið seldi minnkaði um 2,2% ef horft er til 1. ársfjórðungs 2017.

Samkeppni sögð ástæða þrátt fyrir aukna umferð

Segir í fréttatilkynningu frá félaginu skýringuna liggja í aukinni samkeppni á einstaklingsmarkaði, en á sama tíma hafi umferð á þjóðvegum landsins aukist um 5,9%.

Eigið fé félagsins nemur 13.874 milljónum króna og eiginfjárhlutfallið var 49% í ársfjórðungsins. Félagið seldi eldsneyti fyrir tæplega 8 milljarða króna, sem er rúmlega milljarðs aukning sölu frá sama tíma fyrir ári. Kostnaðarverð seldra vara hækkaði úr 4.673 milljónir í 5.700 milljónir króna. Framlegðin af vörusölu félagsins minnkaði á sama tíma úr 2.305 milljónum í 2.282 milljónir.

Launakostnaðurinn jókst um næstum 30 milljónir, en heildarkostnaðurinn um rétt um 100 milljónir króna. Rekstrarhagnaðurinn var 152.655 milljónir en á sama tíma fyrir ári nam hann 278.044 milljónir.

Stikkorð: N1 eldsneyti olía hagnaður tap