Hagnaður N1 nam 117,5 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi 2016. Það er lækkun um 8 milljónir króna milli ára. Hagnaður á hvern hlut nam því 0,34 krónum. Rekstrarhagnaður N1 fyrir afskriftir nam þá 374 milljónum króna á fjórðungnum meiðað við að þær numu 269 milljónum króna á sama tímabili árinu áður.

Sala dróst saman um 3,4 milljarða milli ára en kostnaðarverð seldra vara lækkaði samstiga minnkandi sölu, um 3,5 milljarða. Niðurstaðan varð sú að framlegð vörusölu til afkomu á fjórðungnum hækkaði um tæpar 100 milljónir króna milli ára. Ekki er ómögulegt að þessi atburðarás komi til vegna lækkandi verðs hráolíu, sem hefur hrapað á síðustu árum.

Eignir N1 voru þá í heildina 19,2 milljarðar króna. Þar af er eigið fé fyrirtækisins 6,7 milljarðar króna og skuldir þess 12,4 milljarðar króna - langtímaskuldir 6,7 milljarðar og skammtímaskuldir 5,6 milljarðar.  Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 35,3%. Á síðasta aðalfundi félagsins var samþykkt að greiða ætti arð til hluthafa fyrirtækisins að fjárhæð 1,05 milljarða króna.

Eigið fé N1 á tímabilinu lækkaði þá um rétt tæpan milljarð króna milli ára. Samtímis jukust skammtímaskuldir þess um 1,4 milljarða frá sama tímabili á árinu 2015. Handbært fé félagsins fyrir ári síðan nam 4,7 milljörðum króna en nemur nú 2,6 milljörðum. Það er lækkun um 2,1 milljarða milli ára á sama tímabilinu.