Heildarhagnaður N1 á fyrri helmingi ársins nam 129 milljónum króna.  Rekstrarhagnaður nam 566 milljónum. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu félagsins sem send var út núna í kvöld. Áætlað er að rekstrarhagnaður ársins (EBITDA) verði 2,2-2,3 milljarðar. Eiginfjárhlutfall er 52% en hreinar vaxtaberandi skuldir eru 869 milljónir króna.

Í tilkynningu N1 til Kauphallarinnar kemur fram að í  lok síðasta árs var rekstur Bílanausts færður í sérstakt félag, sem var selt í maí á þessu ári. Sú breyting hefur nokkur áhrif á tekjur og framlegð N1 milli ára en óveruleg áhrif á rekstrarhagnað fyrir afskriftir.

Gengisþróun íslensku krónunnar og þróun á heimsmarkaðsverði olíu hafði umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur félagsins í aprílmánuði 2013, en þá styrktist krónan verulega á skömmum tíma um leið og olíuverð lækkaði í dollurum talið.

Afli á loðnuvertíð var mun minni en á vertíðinni árið áður, sem var sú besta í áraraðir, og hafði það áhrif á afkomu félagsins.

Á fyrri helmingi þessa árs féll til kostnaður vegna undirbúnings skráningar félagsins á markað og vegna sölu á Bílanausti.