Hagnaður Eikar fasteignafélags hf. nam 448 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

Rekstrarhagnaður félagsins var rúmlega 682 milljónir króna á tímabilinu og jókst um 6% frá sama tímabili ársins 2012. Leigutekjur félagsins námu tæplega 937 milljónum króna og jukust um 9%.

Í tilkynningu frá Eik segir að verulegur viðsnúningur hafi átt sér stað í rekstri félagsins frá sama tímabili og í fyrra og beri helst að nefna tvær ástæður fyrir því. Í fyrsta lagi hafi verulegur munur verið á matsbreytingu fjárfestingareigna á milli tímabila. Í öðru lagi hafi fjármagnsgjöld lækkað á árinu vegna endurfjármögnunar félagsins sem lauk í október í fyrra.