*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Erlent 22. janúar 2020 09:08

Hagnaður Netflix jókst um 54%

Áskrifendum Netflix fjölgaði umfram væntingar greiningaraðila á fjórða ársfjórðungi 2019.

Ritstjórn
Reed Hastings, forstjóri Netflix.
epa

Bandaríska streymisveitan Netflix hagnaðist um tæplega 1,9 milljarða dollara á árinu 2019 og jókst hagnaður fyrirtækisins um 54% á milli ára. Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 587 milljónum dollara og ríflega fjórfaldaðist milli ára samkvæmt uppgjöri félagsins sem birt var í gær. 

Tekjur Netflix námu rúmlega 20,1 milljarði dollara á árinu 2019 jukust um 27,6% á meðan tekjur á fjórða ársfjórðungi námu tæplega 5,5 milljörðum dollara og jukust um 30,6% á milli ára. 

Áskrifendum fyrirtækisins fjölgaði á heimsvísu um 8,33 milljónir á fjórða ársfjórðungi sem var töluvert yfir meðaltali greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir 7,17 milljónum nýrra áskrifenda samkvæmt frétt CNBC. Vöxtur í áskriftum í Bandaríkjunum var hins vegar undir væntingum greiningaraðila sem höfðu gert ráð fyrir 589.000 nýjum áskrifendum en þeir voru 550.000 á tímabilinu. 

Ljóst er að æ meiri samkeppni steðjar að Netflix með tilkomu efnisveita á borð við Disney +, Apple + og HBO MAX. Netflix gerir ráð fyrir um 750 milljón dollara hagnaði á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og að tekjur verði um 5,76 milljarðar dollara. Þá er gert ráð fyrir að fjöldi nýrra áskrifenda verði um 7 milljónir á fjórðungnum en sú tala var undir væntingum greiningaraðila sem höfðu að meðaltali gert ráð fyrir 7,86 milljónum. 

Fjárfestar virðast hafa tekið vel í uppgjör fyrirtækisins en bréf Netflix hækkuðu um 2,26% á eftirmarkaði eftir birtingu uppgjörsins. 

Stikkorð: Netflix